Úrdráttur úr ritum hugleiðslukennara okkar, Sri Chinmoy:
Þegar við hugleiðum förum við í raun inn í dýpri hluta verundar okkar. Þannig getum við nálgast innri verðmæti okkar.
Hugleiðsla er eðlilegt ástand verundar okkar en ekki ofskynjanir sem við höfum þvingað fram.
Hún gerist sjálfkrafa þegar við þöggum niður í huganum. Hugleiðslan sprettur innanfrá líkt og uppspretta ljóss, sem ber upp á yfirborðið alla jákvæða eiginleika okkar og tilfinningar.
Hún er ómissandi tæki til að komast yfir hindranir í lífinu, á sama tíma og við höfum ávallt jákvæðni að leiðarljósi. Hugleiðslan er lykillinn að raunverulegri gleði og innri fyllingu; lykill sem opnar leiðina að vonum okkar og andlegri þrá. Og allir geta tileinkað sér hana. Með hugleiðslunni eykst innri, andlegi máttur okkar. Við getum síðan notað hann í daglega lífinu til að verða betri listamenn, skáld eða íþróttamenn og almennt betri samfélagsþegnar.
Um ókeypis hugleiðslunámskeið okkar
Hvernig á að hugleiða?
Þegar við hugleiðum förum við í raun inn í tóman, rólegan, kyrran, þöglan huga. Við förum djúpt inn og nálgumst sanna tilveru okkar, sem er sálin. Þegar við dveljum í sálinni skynjum við að við erum stödd í sjálfsprottinni hugleiðslu.
Málshátturinn segir: ,, Leiðirnar eru margar en markmiðið er eitt.” Vissulega eru margar ólíkar leiðir til að þagga niður í huganum og upplifa hugleiðslu. Á hugleiðslunámskeiðunum okkar eru kenndar ýmsar æfingar og tækni þar sem áherslan er lögð á andlega hjartað.
Í byrjun lærum við einbeitingu. Við veljum okkur hlut eða hugsun eða hljóð til að einbeita okkur að og reynum að halda einbeitingunni í svolítinn tíma. Eftir nokkra stund verður viðfangsefnið miðdepill athygli okkar. Þegar það gerist verður auðveldara fyrir okkur að stjórna hugsunum okkar. Við sleppum einbeitingunni og kyrrlátur hugurinn leyfir okkur að fara inn í andlega hjartað.
Og þaðan sprettur hugleiðslan fram eins og tært vatn.
Það er yfirleitt ekki auðvelt að byrja á einhverju nýju. Viið þurfum að koma reiðu á mörg hagnýt atriði í lífinu. Við þurfum að sýna ákveðni og aga til þess að ná langvarandi árangri.
Til þess að auðvelda þetta ferli förum við yfir þessi hagnýtu atriði á hugleiðslunámskeiðunum okkar.
Hvers vegna hugleiðum við?
Hvers vegna hugleiðum við? Við hugleiðum vegna þess að það sem veröldin veitir okkur nægir okkur ekki. Sá friður sem við finnum dags daglega er fimm mínútna friður eftir tíu stunda áhyggjur og kvíða. Neikvæð öfl, s.s. öfund, ótti, efi, áhyggjur, kvíði og örvænting, sitja stöðugt um okkur.
Þær stundir sem við erum laus við þessi neikvæðu öfl segjumst við njóta friðar. En þetta er ekki raunverulegur friður, aðeins stund milli stríða.
Það er aðeins með hugleiðslu sem við getum öðlast varanlegan frið. Ef við hugleiðum heilshugar að morgni og öðlumst frið mun sá friður hafa áhrif allan daginn. Og þegar við upplifum hugleiðslu af hæstu gráðu, getum við öðlast varanlegan frið, ljós og fögnuð. Ef þetta er það sem við þráum, ef þetta er það sem okkur þyrstir í, þá er hugleiðsla eina leiðin.
Ef við erum sátt við lífið eins og það er, þá er ástæðulaust fyrir okkur að fara inn á svið hugleiðslunnar. Ástæða þess að við förum að hugleiða er sú að við finnum fyrir innra hungri.
Við skynjum að innra með okkur er eitthvað lýsandi, eitthvað víðáttumikið, eitthvað guðlegt. Við finnum að við höfum sterka þörf fyrir þessa eiginleika, en núna höfum við ekki aðgang að þeim. Innra hungur okkar stafar af andlegri þörf.
Rit Sri Chinmoys um hugleiðslu er fáanlegar í Hugleiðsla: lærum að tala tungumál Guðs